Þór Þorlákshöfn er úr leik í bikarkeppni karla í körfubolta eftir óvænt tap á heimavelli gegn nöfnum sínum frá Akureyri í 16-liða úrslitunum í kvöld, 75-77.
Gestunum frá Akureyri hefur ekki gengið vel í deildinni í vetur og sitja í botnsætinu. Leikurinn fór rólega af stað en Þorlákshafnar-Þórsarar höfðu undirtökin og leiddu 22-13 eftir 1. leikhluta. Gestirnir söxuðu á forskotið í 2. leikhluta og staðan var 41-34 í hálfleik.
Þriðji leikhlutinn var jafn og í upphafi þess fjórða náðu heimamenn níu stiga forskoti, 63-54. Þá kom góður kafli hjá gestunum sem jöfnuðu 67-67. Lokakaflinn varð æsispennandi en Akureyringar komust í 72-76 þegar ein og hálf mínúta var eftir. Heimamenn fengu tækifæri til þess að jafna á lokasekúndunum þegar Ragnar Örn Bragason fór á vítalínuna. Það tókst ekki, þeir grænu náðu frákastinu en lokaskotið frá Dino Butorac geigaði og gestirnir sigruðu með tveimur stigum.
Marco Bakovic var stigahæstur Þórsara með 26 stig og 11 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson skoraði 16 og Ragnar Örn Bragason 12.