Þór Þorlákshöfn vann nauman, en jafnframt sætan, sigur á Haukum í úrvalsdeild karla í körfubolta í dag. Munurinn hefði ekki getað orðið minni en lokatölur urðu 99-100.
Þórsarar voru sprækari á upphafsmínútunum en Haukar tóku á sprett undir lok 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 37-25. Þórsliðið lét þetta ekki á sig fá, jafnaði 43-43 fimm mínútum síðar, og hélt síðan forystunni fram að hálfleik, 52-58.
Í upphafi seinni hálfleiks voru Þórsarar í miklu stuði, þeir náðu nítján stiga forskoti, 58-77, en var í kjölfarið kippt harkalega niður á jörðina. Haukar skoruðu fimmtán stig í röð og staðan var orðin 75-79 snemma í 4. leikhluta.
Þá tóku Þórsarar aftur við sér og náðu tíu stiga forskoti en Haukar ætluðu ekki að játa sig sigraða. Þeir komust yfir 95-94, þegar 40 sekúndur voru eftir en Þór var skrefinu á undan á lokasekúndunum og Nik Tomsick skoraði sigurkörfuna, 99-100, þegar fimm sekúndur voru eftir.
Þórsarar dreifðu stigaskorinu lítið í dag en þrír leikmenn skoruðu 85% stiganna í leiknum. Mustapha Heron var stigahæstur með 31 stig, Nikolas Tomsick skoraði 28 og sendi 9 stoðsendingar og Jordan Semple var framlagshæstur með 26 stig og 10 fráköst.
Þórsarar eru í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en Haukar eru áfram á botninum með 8 stig.
Haukar-Þór Þ. 99-100 (37-25, 15-33, 20-21, 27-21)
Tölfræði Þórs: Mustapha Heron 31/7 fráköst, Nikolas Tomsick 28/9 stoðsendingar, Jordan Semple 26/10 fráköst/5 stolnir, Emil Karel Einarsson 7, Justas Tamulis 5, Ragnar Örn Bragason 3.