Þór vann spennandi nágrannaslag

Jordan Semple fer framhjá Ragnari Nathanaelssyni í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór og Hamar áttust við í stórskemmtilegum nágrannaslag í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Þórsarar höfðu gott forskot í hálfleik en Hamarsmenn voru frábærir í seinni hálfleiknum. Eftir æsispennandi lokakafla sigruðu Þórsarar 86-80.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku Þórsarar af skarið og náðu tólf stiga forskoti. Staðan að loknum 1. leikhluta var 23-13. Hamar minnkaði muninn í fjögur stig í upphafi 2. leikhluta en eftir það tóku Þórsarar völdin og staðan í hálfleik var 53-35.

Þór hafði átján stiga forskot í leikhléinu en Hamarsmenn mættu gríðarlega ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og voru fljótir að koma sér inn í leikinn aftur. Hamar minnkaði muninn í fjögur stig, 66-62, og í upphafi 4. leikhluta jöfnuðu þeir 72-72. Þá stoppuðu Þórsarar í götin á vörninni, tóku tíu stiga áhlaup og héldu aftur af Hamri það sem eftir lifði leiks.

Darwin Davis var stigahæstur Þórsara í kvöld með 21 stig, Tómas Valur Þrastarson skoraði 20 stig og tók 8 fráköst, Nigel Pruitt skoraði 17 stig og Jordan Semple 14 auk þess að taka 11 fráköst og senda 7 stoðsendingar.

Hjá Hamri var Jaylen Moore allt í öllu með 37 stig, Franck Kamgain skoraði 18 stig, Björn Ásgeir Ásgeirsson 14 og Ragnar Nathanaelsson skoraði 8 stig og tók 8 fráköst.

Þórsarar eru með 14 stig á toppi deildarinnar eins og þrjú önnur lið. Hamar hefur ekki enn unnið leik í vetur og er án stiga á botni deildarinnar.

Fyrri greinMiklar skemmdir á sundlauginni á Stokkseyri
Næsta greinKornax hveitið hlýtur alþjóðlega matvælaöryggisvottun