Þórir Evrópumeistari í sjötta sinn

Þórir Hergeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu í handbolta til sigurs á Evrópumeistaramótinu í dag í sjötta skiptið.

Noregur vann Danmörku örugglega, 31-23 í úrslitaleiknum. Danir byrjuðu af krafti en Noregur leiddi í hálfleik, 13-12. Þær norsku byrjuðu frábærlega í seinni hálfleiknum og náðu fljótlega fimm makar forskoti. Norska vörnin gerði útslagið í seinni hálfleik því forskot Norðmanna jókst þegar leið á leikinn og að lokum unnu þær öruggan átta marka sigur.

Eins og greint var frá í haust mun Þórir hætta með norska kvennalandsliðið nú að loknu Evrópumeistaramóti. Afrekaskrá hans með liðið á sér enga hliðstæðu í íþróttasögunni en þetta eru elleftu gullverðlaun hans á stórmóti sem aðalþjálfari norska liðsins.

Þórir tók við liðinu í apríl 2009 og síðan þá hefur liðið unnið gullverðlaun á EM 2010, HM 2011, Ólympíuleikunum 2012, EM 2014, HM 2015, EM 2016, EM 2020, HM 2021, EM 2022, Ólympíuleikunum 2024 og nú EM 2024. Þá á liðið hans Þóris einnig silfurverðlaun frá EM 2012, HM 2017 og HM 2023 og bronsverðlaun frá HM 2009 og Ólympíuleikunum 2016.

Fyrri greinHlýjar gjafir til Árbliks og Vinaminnis
Næsta greinSelfoss Íslandsmeistari í futsal kvenna