Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson var kjörinn þjálfari ársins 2024 á Íslandi en kjörinu var lýst á 69. hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Hörpu í kvöld.
Þetta er í þriðja sinn sem Þórir hlýtur þessi verðlaun og hann hefur fjórum sinnum verið í öðru sæti í kjörinu. Þórir var ekki viðstaddur athöfnina í kvöld en systur hans, Guðrún Herborg og Ragnheiður tóku við verðlaununum fyrir hans hönd.
Sjálfur var Þórir staddur á galakvöldi íþróttafólks í Þrándheimi í Noregi þar sem hann tók á móti sömu verðlaunum þar í landi. Auk þess var norska kvennalandsliðið í handknattleik valið lið ársins í Noregi. Þórir hefur einu sinni áður verið valinn þjálfari ársins í Noregi.
Þórir gerði kvennalið Noregs í handbolta að Ólympíumeisturum í ágúst og Evrópumeisturum í desember á síðasta ári en Evrópumótið var síðasta verkefni Þóris með liðinu. Á fimmtán árum sem aðalþjálfari hefur Þórir stýrt Noregi til sigurs á ellefu stórmótum.
Ómar Ingi og Snæfríður Sól meðal þeirra bestu
Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon og Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir urðu í 6. og 7. sæti í kjörinu um íþróttamann ársins, Ómar með 94 stig og Snæfríður með 69 stig. Knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir er íþróttamaður ársins með fullt hús stiga, 480 stig.
Sigurbjörn í heiðurshöllina
Þá var hestamaðurinn Sigurbjörn Bárðarson í Oddhól á Rangárvöllum tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ. Sigurbjörn er margfaldur Íslands- og heimsmetshafi í skeiðgreinum, hefur unnið þrettán gullverðlaun á heimsmeistaramótum og 120 Íslandsmeistaratitla. Sigurbjörn hefur verið landsliðseinvaldur undanfarin sjö ár og var íþróttamaður ársins 1993.