Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson var kjörinn þjálfari ársins 2022 í Noregi en kjörinu var lýst á Idrettsgallaen hátíðinni í Hamar á bökkum Mjøsavatnsins í kvöld.
Í þakkarræðunni sagði Þórir að þetta væri einstaklega stór áfangi fyrir sig en líta mætti á þetta sem verðlaun fyrir stöðuga velgengni liðsins undanfarna áratugi.
„Ég er þriðji aðalþjálfari landsliðsins á næstum 40 ára tímabili og við sjáum til hvort að við getum skipt þessum verðlaunagrip í þrjá hluta, það væri fínt,“ sagði Þórir.
Þrátt fyrir að Þórir sé sigursælasti landsliðsþjálfari heimshandboltans þá er þetta í fyrsta skipti sem hann hlýtur þessa viðurkenningu.
Í nóvember síðastliðnum varð norska kvennalandsliðið Evrópumeistari og vann liðið þar sín níundu gullverðlaun á stórmóti undir stjórn Þóris.