Þórsarar eltu allan tímann

Davíð Arnar Ágústsson, Ronaldas Rutkauskas og Luciano Massarelli reyna að ná knettinum af andstæðingnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn mistókst að tryggja sér sinn fyrsta bikarmeistaratitil í karlaflokki í körfubolta þegar liðið tapaði 93-85 gegn Stjörnunni í úrslitaleik í Smáranum í dag.

Þórsarar náðu aldrei að komast á almennilegt skrið í leiknum og Stjarnan var í bílstjórasætinu allan tímann. Stjörnumenn leiddu nánast allan fyrri hálfleikinn og unnu þá frákastabaráttuna á báðum endum vallarins. Staðan í hálfleik var 45-42, eftir snarpan sprett Þórsara í 3. leikhluta.

Stjörnumenn voru sterkari í seinni hálfleiknum og Þór var ekki að hitta vel. Smá spenna hljóp í leikinn á lokamínútunni, þegar Þór náði að minnka muninn niður í fimm stig en nær komust þeir ekki og tíminn var of naumur til þess að þeir grænu létu til sín taka í lokin.

Luciano Massarelli var stigahæstur Þórsara með 28 stig og 7 fráköst og Glynn Watson var framlagshæstur með 26 stig og 8 fráköst. Skotnýting Þórsara var léleg, sérstaklega úr þrigga stiga skotum. Liðið nýtti 25% af þeim 39 skotum sem það tók fyrir utan teig.

Uppselt var á leikinn og voru Þórsarar vel studdir í stúkunni, af Græna drekanum og öðrum fylgismönnum sínum.

Tölfræði Þórs: Luciano Massarelli 28/7 fráköst, Glynn Watson 26/8 fráköst, Kyle Johnson 9, Ragnar Örn Bragason 7, Daniel Mortensen 7/5 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 4/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 4/4 fráköst.

Glynn Watson var framlagshæstur Þórsara með 26 stig og 8 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Græni drekinn stóð fyrir sínu í stúkunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSkallamark Bergrósar skilaði stigi
Næsta greinAnton Kári efstur hjá D-listanum í Rangárþingi eystra