Þórsarar eru enn stigalausir í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir 89-91 tap á heimavelli gegn Hetti frá Egilsstöðum í kvöld.
Þór byrjaði betur í leiknum en undir lok 1. leikhluta gerði Höttur 12-2 áhlaup og breytti stöðunni í 23-31. Þórsarar komu til baka í 2. leikhluta, jöfnuðu 37-37 og staðan var 50-47 í hálfleik.
Höttur skreið framúr í 3. leikhluta og jók muninn smátt og smátt en lokakaflinn var spennandi og þegar rúm mínúta var eftir hafði Þór minnkað muninn aftur í þrjú stig, 84-87. Hattarmenn voru hins vegar nánast óskeikulir á vítalínunni á lokamínútunni og tryggðu sér sigurinn þaðan þegar fimm sekúndur voru eftir.
Styrmir Snær Þrastarson og Adam Rönnqvist skiluðu góðu framlagi fyrir Þór í kvöld og voru stigahæstir með 22 stig. Fotios Lampropoulos skoraði 17 en aðrir höfðu hægar um sig.
Þórsarar eru í 11. sæti deildarinnar án stiga, eins og KR sem er í 12. sæti. Höttur vann sinn fyrsta sigur í kvöld og er í 10. sæti með 2 stig.
Tölfræði Þórs: Adam Rönnqvist 22/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 22/10 fráköst/7 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 17, Pablo Hernandez 11, Alonzo Walker 9/4 fráköst, Daníel Ágúst Halldórsson 4/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 4, Josep Pérez 6 stoðsendingar.