Þór Þorlákshöfn vann stórsigur á Þór Akureyri í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfubolta á Akureyri í kvöld. Þórsarar sigruðu 66-98 og unnu þar með einvígið 3-1.
Þórsarar byrjuðu á leiftursókn leiddu frá fyrstu mínútu. Staðan var orðin 17-39 í upphafi 2. leikhluta. Þór Ak náði að minnka muninn í 12 stig í 2. leikhluta en staðan var 32-48 í hálfleik. Akureyringar náðu ekkert að ógna í seinni hálfleiknum og Þór Þorlákshöfn kláraði leikinn af einstöku öryggi, vel studdir af Græna drekanum sem var mættur í stúkuna fyrir norðan.
Callum Lawson var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 8 fráköst, Larry Thomas átti stórleik; skoraði 17 stig, tók 10 fráköst og sendi 9 stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason skoraði 14 stig og Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur í röð í 4. leikhluta og var með 100% skotnýtingu. Styrmir Snær Þrastarson skoraði 9 stig og tók 10 fráköst og Adomas Drungilas var mættur aftur á parketið eftir þriggja leikja bann og hann tók einnig 10 fráköst, auk þess að skora 8 stig.