Þórsarar hikstuðu í lokin

Mustapha Heron skoraði 21 stig og tók 7 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tók á móti nágrönnum sínum frá Grindavík í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Eftir spennandi lokakafla hafði Grindavík betur, 95-104.

Þórsarar byrjuðu betur í leiknum en Grindavík svaraði fyrir sig á lokamínútum 1. leikhluta og staðan var 23-21 að honum loknum. Varnarleikurinn var í lágmarki hjá Þór í upphafi 2. leikhluta og Grindvíkingar gengu á lagið. Gestirnir áttu góðan sprett og staðan í hálfleik var 37-50.

Þór elti allan 3. leikhlutann og náði að minnka bilið niður í fjögur stig, 70-74, áður en síðasti fjórðungurinn hófst. Þar var lengst af allt í járnum en á síðustu fjórum mínútunum fóru Þórsarar að hiksta og Grindavík tryggði sér níu stiga sigur á lokasprettinum.

Nikolas Tomsick var stiga- og framlagshæstur Þórsara í kvöld með 24 stig, 11 stoðsendingar og 7 fráköst.

Þórsarar eru í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en Grindavík er í 4. sætinu með 18 stig.

Þór Þ.-Grindavík 95-104 (23-21, 14-29, 33-24, 25-30)
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 24/7 fráköst/11 stoðsendingar, Mustapha Heron 21/7 fráköst, Jordan Semple 16/13 fráköst, Emil Karel Einarsson 11, Justas Tamulis 10, Ólafur Björn Gunnlaugsson 7, Davíð Arnar Ágústsson 6.

Fyrri greinLukkan ekki með Selfyssingum í Smáranum
Næsta greinFrosti skoraði þrennu í tíu marka jafntefli