Stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs í Þorlákshöfn ákvað að stíga stórt skref og skrá karlalið Þórs í Evrópubikarkeppni karla, FIBA Europe cup, á komandi vetri.
Körfuknattleikssamband Evrópu staðfesti þátttökuliðin í keppnina í dag en af fjórum efstu liðum Íslandsmótsins, sem fengu boð um þátttöku, var Þór eina liðið sem ákvað að skrá lið til leiks.
Þór er eitt af 32 liðum sem leika í FIBA Europe Cup, eða Evrópubikar FIBA, og fer liðið fer í undankeppni sem verður leikin í lok september. Þar leika 22 lið í fjórum riðlum um átta laus sæti í riðlakeppninni, en þangað fara tíu lið beint.
Þórsarar eru í sjötta og neðsta styrkleikaflokki áður en dregið verður í riðlana næstkomandi fimmtudag. Í fyrstu umferð undankeppninnar geta Þórsarar dregist gegn liðum frá Ísrael, Frakklandi, Eistlandi eða Kýpur.