Þorlákshafnar-Þórsarar eru komnir með bakið upp við vegg í einvíginu gegn Haukum í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Haukar unnu leik þrjú í kvöld og leiða 2-1 í einvíginu.
LIðin mættust á Ásvöllum og þar voru heimamenn ákveðnari í upphafi. Staðan var 32-21 eftir 1. leikhluta en Þór jafnaði 37-37 í 2. leikhluta og staðan var 55-50 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var æsispennandi og í upphafi þess fjórða var staðan orðin 81-78. Nær komust Þórsarar ekki því Haukar tóku leikinn yfir og ekkert gekk hjá þeim grænu í sókninni. Forskot Hauka jókst hratt í sautján stig. Lokatölur urðu 104-90.
Fotios Lampropoulos og Vincent Shahid skoruðu báðir 23 stig fyrir Þór og Shahid sendi 11 stoðsendingar að auki.
Liðin mætast næst í Þorlákshöfn á laugardaginn klukkan 19:00 og þar verða Þórsarar að sigra, til þess að knýja fram oddaleik í Hafnarfirði á mánudaginn.
Haukar-Þór Þ. 104-90 (32-21, 23-29, 26-25, 23-15)
Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 23/11 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 23/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 22/5 fráköst, Jordan Semple 13/9 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 4, Davíð Arnar Ágústsson 3, Styrmir Þorbjörnsson 2, Pablo Hernandez Montenegro 6 fráköst.