Það fór gjörsamlega allt á annan endann í Þorlákshöfn í kvöld þegar Þór tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla í fyrsta skipti með frábærum sigri á Keflavík, 81-66.
Þór vann því einvígið 3-1 en liðið nærðist á stemningunni í húsinu í Þorlákshöfn í kvöld og varnarleikur liðsins var algjörlega óaðfinnanlegur í þremur síðustu leikhlutunum. Staðan í hálfleik var 43-40 en Þórsarar höfðu völdin í seinni hálfleik og allt ætlaði um koll að keyra þegar lokaflautan gall.
Adomas Drungilas var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar en hann átti frábæran leik í kvöld með 24 stig og 11 fráköst. Larry Thomas var sömuleiðis magnaður með þrefalda tvennu í kvöld en annars var um frábæran liðssigur að ræða. Myndirnar hér fyrir neðan segja miklu meira en mörg orð.
Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Þórsara í meistaraflokki og brjóta þeir nú blað í sunnlenskri körfuboltasögu því ekkert lið á svæðinu hefur fagnað þessum titli áður.
Tölfræði Þórs: Adomas Drungilas 24/11 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 17/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 15, Larry Thomas 11/12 fráköst/11 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 5, Halldór Garðar Hermannsson 4, Emil Karel Einarsson 3/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 2.