Þór Þorlákshöfn vann stórsigur á Íslandsmeisturum Val í úrvalsdeild karla í körfubolta, þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld, 94-69.
Þórsarar fóru gjörsamlega á kostum á parketinu í vatnshöllinni og tóku leikinn strax í sínar hendur. Þeir héldu Valsmönnum í 27 stigum í fyrri hálfleik og staðan var 47-27 í leikhléi.
Þór fór á fullri inngjöf inn í seinni hálfleikinn og náði mest 35 stiga forskoti, 82-47 í upphafi 4. leikhluta. Valsmenn áttu enga möguleika á endurkomu og Þór vann að lokum sannfærandi sigur með 25 stiga mun.
Nikolas Tomsick var stigahæstur Þórsara með 23 stig og 7 stoðsendingar og Mustapha Heron var framlagshæstur með 21 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.
Þórsarar eru í 6. sæti deildarinnar með 14 stig en Valur er í 9. sæti með 10 stig.
Þór Þ.-Valur 94-69 (23-10, 24-17, 26-17, 21-25)
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 23/7 stoðsendingar, Mustapha Heron 21/8 fráköst/7 stoðsendingar, Justas Tamulis 16/7 fráköst, Jordan Semple 16/6 fráköst, Ólafur Björn Gunnlaugsson 6, Morten Bulow 4/10 fráköst, Arnór Daði Sigurbergsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 3, Ragnar Örn Bragason 2.