Þór Þorlákshöfn tapaði í kvöld 93-108 þegar liðið mætti KR í fjórða leik einvígisins í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. KR vann því einvígið 3-1 og sendi Þórsara í sumarfrí.
„Við spiluðum ekki nægilega góða vörn í einvíginu til þess að eiga skilið að fara áfram. Það er ekki gáfulegt að grafa sig í holu á móti KR og við gerðum það með þessari byrjun okkar í kvöld. Við reyndum og reyndum að koma tilbaka en þá settu þeir þrista í andlitið á okkur eða tóku fráköst á móti okkur og því fór sem fór,“ sagði Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs, í samtali við mbl.is eftir leik.
Þórsarar byrjuðu illa í leiknum og KR leiddi 22-34 eftir 1. leikhluta. Eftir það var leikurinn jafn en Þórsurum gekk ekkert að minnka forskot gestanna. Staðan í leikhléi var 47-58.
KR mætir því Stjörnunni eða ÍR í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins en Þórsarar geta farið að leggja drög að næstu leiktíð.
Nikolas Tomsick var öflugur í liði Þórs í kvöld með 20 stig og 10 stoðsendingar og Jaka Brodnik var sömuleiðis atkvæðamikill með 18 stig og 9 fráköst.
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 30/10 stoðsendingar, Jaka Brodnik 18/9 fráköst, Ragnar Örn Bragason 15/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 13/5 fráköst, Kinu Rochford 11/13 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 6/5 fráköst.