Þór Þorlákshöfn hefur lokið leik á Íslandsmótinu í körfubolta þennan veturinn. Þór tapaði 114-119 á heimavelli gegn Keflavík í kvöld og missti þar með af sæti í úrslitakeppninni.
Þórsurum dugði reyndar ekki aðeins að sigra í kvöld því þeir þurftu að treysta á önnur úrslit og í stuttu máli féll ekkert með þeim í lokaumferðinni. Þórsarar enduðu því í 10. sæti deildarinnar en Keflavík tryggði sér 8. sætið og sæti í úrslitakeppninni.
Leikur Þórs og Keflavíkur var í járnum allan fyrri hálfleikinn og staðan í leikhléi 55-55. Keflvíkingar náðu frumkvæðinu í 3. leikhluta en Þórsarar voru aldrei langt undan.
Í upphafi 4. leikhluta gerði Keflavík hins vegar 12-2 áhlaup og breyttu stöðunni í 94-108. Þórsarar svöruðu með frábærum spretti og jöfnuðu 111-111 þegar tvær mínútur voru eftir. Þar með var bensínið búið hjá Þór, Keflavík hitti betur á lokamínútunum og sigraði að lokum 114-119.
Eins og oft áður í vetur var Jordan Semple besti maður Þórs í kvöld með 31 stig og 7 fráköst. Justas Tamulis átti góðan leik með 26 stig og 10 stoðsendingar og Mustapha Heron sömuleiðis með 30 stig.
Þór Þ.-Keflavík 114-119 (25-24, 30-31, 29-36, 30-28)
Tölfræði Þórs: Jordan Semple 31/7 fráköst/3 varin skot, Mustapha Heron 30/5 fráköst, Justas Tamulis 26/4 fráköst/10 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 11, Ólafur Björn Gunnlaugsson 9/8 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 5, Ragnar Örn Bragason 2.