Þórsarar eru komnir í úrslitaleik bikarkeppni karla í körfubolta eftir glæsilegan sigur á Val í spennutrylli í Smáranum í Kópavogi í kvöld.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og liðin skiptust á um að hafa undirtökin í leiknum. Þórsarar leiddu 46-40 í leikhléi og voru skrefinu á undan stærstan hluta seinni hálfleiks, en Valsmenn önduðu hressilega niður um hálsmálið hjá þeim allan tímann. Valur minnkaði muninn í eitt stig á lokamínútunum en Þórsarar héldu sjó og unnu að lokum 90-85.
Glynn Watson var stigahæstur Þórsara með 24 stig, Luciano Massarelli og Ragnar Örn Bragasno skoruðu 14, Daniel Mortensen átti mjög góðan leik með 11 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson skoraði 10, Ronaldas Rutkauskas og Kyle Johnson skoruðu 6 og Emil Karel Einarsson 5.
Þetta er í þriðja skiptið sem Þórsarar komast í bikarúrslit, en liðið hefur aldrei unnið titilinn. Þór mætir Stjörnunni í úrslitaleiknum og verður hann leikinn í Smáranum á laugardaginn kl. 16:45.