Þór Þorlákshöfn vann sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur þegar liðið tók á móti Keflavík í 6. umferð deildarkeppninnar í kvöld.
Þórsarar skoruðu fyrstu fimm stigin en en síðan kom 13-2 áhlaup frá Keflvíkingum sem leiddu 24-29 eftir 1. leikhluta. Keflavík var skrefinu á undan í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 45-49.
Gestirnir náðu tíu stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá small loksins allt saman hjá Þórsurum, sem áttu frábæran kafla bæði í vörn og sókn og þeir komust í 82-73 áður en 3. leikhluta lauk. Þórsarar voru komnir á flug og gáfu ekkert eftir á lokakaflanum, þeir náðu 20 stiga forskoti í 4. leikhluta en lokatölur leiksins urðu 116-102.
Forios Lampropoulos var með risaframlag fyrir Þórsara en hann var bæði stiga og frákastahæstur, með 30 stig og 9 fráköst. Vincent Shahid gaf Lampropoulos lítið eftir með 24 stig og 19 stoðsendingar.
Með sigrinum lyfta Þórsarar sér upp í 11. sætið með 2 stig, eins og KR og ÍR.
Tölfræði Þórs: Fotios Lampropoulos 30/9 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Vincent Malik Shahid 24/6 fráköst/19 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 21/8 fráköst, Pablo Hernandez Montenegro 15/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 9/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6, Daníel Ágúst Halldórsson 5/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 4, Arnór Bjarki Eyþórsson 2.