Íslandsmeistarar Þórs tryggðu sér í kvöld titilinn meistarar meistaranna þegar þeir sigruðu bikarmeistara Njarðvíkur 113-110 í Meistarakeppni karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld.
Leikurinn var jafn og spennandi framan af en Njarðvíkingar leiddu 57-59 í hálfleik. Íslandsmeistararnir voru hins vegar sterkari í seinni hálfleiknum og þeir lögðu grunninn að góðum sigri í 3. leikhluta þar sem þeir náðu tuttugu stiga forskoti. Þórsarar héldu svo aftur af Njarðvíkingum í síðasta fjórðungnum og unnu öruggan sigur.
Daniel Mortensen var stigahæstur Þórsara með 26 stig og Luciano Massarelli skoraði 25 og sendi 7 stoðsendingar. Ronaldas Rutkauskas var sömuleiðis öflugur með 23 stig og 12 fráköst, Glynn Watson skoraði 16 stig, tók 11 fráköst og sendi 8 stoðsendingar og Davíð Arnar Ágústsson skoraði 12 stig.
Keppni í úrvalsdeildinni í körfubolta hefst eftir fimm daga og í fyrstu umferð mætast þessi lið aftur, þá í Njarðvík.