Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Haukum í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld en á sama tíma töpuðu Hamarsmenn gegn Stjörnunni.
Þórsarar leiddu allan 1. leikhlutann í leiknum í Þorlákshöfn en Haukar skoruðu síðustu körfu leikhlutans og staðan var 20-20 að honum loknum. Annar leikhluti var í járnum, liðin skiptust á um að hafa forystuna en staðan í hálfleik var 37-42, Haukum í vil.
Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik en Þórsarar jöfnuðu 50-50 þegar fimm mínútur voru liðnar. Þórsliðið sló ekkert af eftir það og hélt forystunni til leiksloka, þó að lokasekúndurnar hafi verið spennandi. Haukar jöfnuðu 80-80 þegar 41 sekúnda var eftir en Tómas Valur Þrastarson lokaði leiknum af miklu öryggi á vítalínunni og tryggði Þór 84-81 sigur.
Tómas Valur var stigahæstur með 21 stig, Darwin Davis skoraði 20 stig og sendi 7 stoðsendingar, Jordan Semple skoraði 14 stig og tók 6 fráköt og Davíð Arnar Ágústsson skoraði 10 stig.
Frábær byrjun dugði Hamri ekki
Hamarsmenn voru frábærir í 1. leikhluta gegn Stjörnunni og leiddu 28-17 að honum loknum. Stjarnan svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 43-42 í hálfleik.
Liðin skiptust á um að halda forystunni í 3. leikhluta en undir lok hans náði Stjarnan átta stiga forskoti, 60-68, og gestirnir héldu forystunni eftir það, allt til leiksloka. Munurinn var fjögur stig þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en Hamarsvörnin var hriplek á lokamínútunum og Stjarnan vann öruggan sigur, 80-90.
Maurice Creek var stigahæstur Hamarsmanna með 21 stig og 7 fráköst, Ragnar Nathanaelsson skoraði 13 stig og tók 9 fráköst, Jose Medina skoraði 13 stig og Danero Thomas 11.