Þórsarar unnu frábæran baráttusigur á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Garðabænum, 80-84.
Leikurinn var í járnum allan tímann og munurinn var lítill á liðunum. Þórsarar leiddu 17-22 eftir 1. leikhluta en Stjarnan komst yfir 39-35 í 2. leikhluta. Þórsarar skoruðu hins vegar síðustu sex stigin í fyrri hálfleik og staðan var 39-41 í hálfleik.
Stjarnan leiddi allan 3. leikhluta en Nigel Pruitt setti niður þrist í lokin og staðan var 59-60 þegar fjórði leikhluti hófst. Þór hafði frumkvæðið allan 4. leikhluta og náði tíu stiga forskoti þegar fjórar mínútur voru eftir. Lokakaflinn var fjörugur en Þórsarar héldu sjó og unnu góðan sigur.
Tómas Valur Þrastarson var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 9 fráköst, Nigel Pruitt skoraði 21 stig, Darwin Davis skoraði 14 stig og tók 8 fráköst og Jordan Semple skoraði 11 stig og tók 8 fráköst.