Þór Þorlákshöfn tapaði 77-68 gegn kýpverska liðinu Petrolina AEK í riðlakeppni Evrópubikars karla í körfubolta í dag, en leikurinn fór fram í Minatori í Kósóvó. Þetta var fyrsti Evrópuleikurinn í sögu Þórsara.
Kýpverjarnir voru skrefinu á undan í allan dag, í annars jöfnum leik. Jafnræði var með liðunum framan af 1. leikhluta en síðan skreið Petrolina fram úr og leiddi með litlum mun út leikinn.
Staðan í leikhléi var 45-36 en Þór náði að minnka muninn í 49-45 um miðjan 3. leikhluta. Nær komust Þórsarar ekki í dag og Kýpverjarnir héldu þeim í hæfilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks.
Fotios Lampropoulos var stigahæstur Þórsara í dag með 18 stig og 7 fráköst, Alonzo Walker skoraði 16 stig og tók 8 fráköst, Josep Perez skoraði 10 stig og tók 5 fráköst, Tómas Valur Þrastarson skoraði 9 stig, Adam Rönnqvist 6 og þeir Emil Karel Einarsson, Daníel Halldórsson og Pablo Hernandez skoruðu allir 3 stig en Hernandez tók 7 fráköst þar að auki.
Þórsarar eru þar með fallnir úr keppni en Petrolina mætir Antwerp Giants í undanúrslitum undanriðilsins.