Þór Þorlákshöfn vann ÍR 98-105 á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var mjög sveiflukenndur en Þórsarar leiddu 25-31 eftir 1. leikhluta. ÍR-ingar voru atkvæðameiri í 2. leikhluta og staðan var orðin 55-52 í leikhléi.
Enn syrti í álinn hjá Þór í 3. leikhluta, þar sem ÍR jók forskot sitt í sextán stig, 83-67. Undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða áttu Þórsarar hins vegar góðan sprett og þeir jöfnuðu 92-92 um miðjan 4. leikhlutann. Þorlákshafnarbúar létu kné fylgja kviði og luku leiknum með 13-6 áhlaupi og tryggðu sér góðan sigur.
Larry Thomas var stigahæstur Þórsara í kvöld með 25 stig og Adomas Drungilas var firnasterkur með 19 stig og 10 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði 17 stig og tók 7 fráköst, Ragnar Örn Bragason skoraði 16 stig, Callum Lawson 13 auk þess sem hann tók 10 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 11 og Halldór Garðar Hermannsson 4, auk þess sem hann sendi 11 stoðsendingar.
Þórsarar eru í 2. sæti deildarinnar með 22 stig en ÍR er í 8. sæti með 14 stig.