Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega gegn nágrönnum sínum í Grindavík í framlengdum leik í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Þorlákshöfn urðu 92-94.
Leikurinn var jafn í upphafi en eftir fimm mínútna leik gerðu Grindvíkingar áhlaup og juku forskotið í tíu stig, 10-20. Þórsarar skoruðu síðustu fimm stigin í 1. leikhluta og staðan var 18-22 að honum loknum. Forskot Grindvíkinga hélst svipað í 2. leikhluta og þeir leiddu í leikhléi, 36-43.
Grindavík var sterkari aðilinn í 3. leikhluta og gestirnir juku forskotið smátt og smátt, en þegar 4. leikhluti hófst var staðan orðin 56-70. Þórsarar bitu heldur betur frá sér í 4. leikhluta og náðu að jafna, 77-77 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Lokakaflinn var æsispennandi, Callum Lawson setti niður stóran þrist þegar hálf mínúta var eftir og kom Þór tveimur stigum yfir, en Grindvíkingar jöfnuðu úr tveimur vítaskotum, 85-85. Framlenging.
Þórsarar voru skrefinu á undan í upphafi framlengingarinnar en Grindvíkingar skoruðu svo sex stig í röð og breyttu stöðunni í 91-94. Larry Thomas átti möguleika á að jafna fyrir Þór af vítalínunni, en aðeins eitt víti af þremur rataði ofan í og lokatölur urðu því 92-94.
Larry Thomas var bestur í liði Þórs í kvöld, skoraði 24 stig og sendi 9 stoðsendingar. Adomas Drungilas skoraði 17 stig og tók 10 fráköst, Callum Lawson skoraði 14 stig, Styrmir Snær Þrastarson 12 og Ragnar Bragason 11. Davíð Arnar Ágústson og Halldór Garðar Hermannsson skoruðu báði 7 stig og Halldór sendi 9 stoðsendingar að auki.