Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum KR á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en KR bjó sér til forskot í 2. leikhluta og leiddi 47-36 í hálfleik. Þórsarar mættu brjálaðir inn í seinni hálfleikinn, skoruðu fyrstu tólf stigin og komust yfir, 47-48.
Þór hafði forystuna allt fram í upphaf 4. leikhluta þegar KR skoraði 9 stig í röð og breytti stöðunni úr 62-66 í 69-66. Lokakaflinn var æsispennandi en KR var skrefinu á undan og Þór náði ekki að nýta sín skot á lokamínútunni. Lokatölur urðu 78-75.
Þórsarar eru í 9. sæti deildarinnar með 2 stig en KR er á toppnum með 8 stig.
Tölfræði Þórs: Vincent Bailey 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 20/6 fráköst, Marko Bakovic 16/15 fráköst, Dino Butorac 12/6 fráköst/7 stoðsendingar, Halldór Hermannsson 3, Styrmir Snær Þrastarson 0, Davíð Arnar Ágústsson 0, Ragnar Örn Bragason 0.