Forráðamenn félaganna í úrvalsdeild karla í körfubolta spá Þór Þorlákshöfn 5. sætinu í deildinni en fulltrúar fjölmiðlanna spá Þór 6. sætinu.
Þetta kom í ljós á kynningarfundi karladeildanna í körfubolta í gær. Félögin spá því að Keflavík verði deildarmeistari en fjölmiðlarnir hafa meiri trú á Tindastól. Í báðum spánum er Hetti og ÍR spáð falli.
Fulltrúar félaganna í 1. deildinni spá Hamri 3. sæti og Selfossi 4. sæti en Hrunamenn eru aftar á merinni í 8. sæti. Álftanesi er spáð deildarmeistaratitlinum.
Keppni í úrvalsdeildinni hefst þann 6. október en þá taka Þórsarar á móti Breiðabliki á heimavelli. Keppni í 1. deildinni er þegar hafin og í kvöld verður Suðurlandsslagur í Gjánni á Selfossi þar sem Hrunamenn heimsækja Selfyssinga. Á sama tíma tekur Hamar á móti Álftanesi.