Þórsarar undir í einvíginu

Larry Thomas var stigahæstur Þórsara í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði fyrsta leiknum í einvíginu gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta 90-99.

Liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld í jöfnum og spennandi leik. Þórsarar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik en forskotið varð þó aldrei meira en fimm stig og staðan var 48-47 í hálfleik.

Bæði lið áttu góð áhlaup í 3. leikhluta og Þórsarar leiddu að honum loknum, 69-67. Það gekk þó ekki eins vel í þeim fjórða því Stjarnan skoraði fyrstu tólf stigin og náði tíu stiga forskoti sem Þórsurum tókst ekki að vinna niður, þó að munurinn hafi ekki verið mikill.

Larry Thomas var stigahæstur Þórsara með 25 stig og 6 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason skoraði 13 og Adomas Drungilas 11, auk þess sem hann tók 10 fráköst.

Staðan er því 1-0 fyrir Stjörnunni í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitarimmuna gegn Keflavík eða KR. Næsti leikur Þórs og Stjörnunnar fer fram í Garðabænum á fimmtudagskvöld.

Fyrri greinRéttindalaus á 130 km/klst hraða
Næsta greinÁrborgarar einráðir á vellinum