Þór Þorlákshöfn er úr leik í bikarkeppni karla í körfubolta eftir tap gegn Hetti á útivelli í 32-liða úrslitunum í kvöld. Skellur fyrir Þórsara sem fóru alla leið í bikarúrslitin á síðasta tímabili.
Leikurinn var í járnum allan tímann og munurinn á liðunum aldrei mikill. Staðan í leikhléi var 39-34, Hetti í vil. Hattarmenn voru sterkari í 3. leikhluta og leiddu með 10 stigum þegar sá fjórði hófst.
Þar söxuðu Þórsarar jafnt og þétt á forskot Hattar og 38 sekúndum fyrir leikslok minnkaði Pablo Hernandez muninn í 78-75 með þriggja stiga körfu. Höttur missti boltann í næstu sókn svo að Þór fékk færi á að jafna en þriggja stiga skot Styrmis Snæs Þrastarsonar á lokasekúndunni geigaði.
Styrmir Snær átti fínan leik í kvöld, skoraði 23 stig og tók 7 fráköst. Pablo Hernandez skoraði 14 stig og tók 9 fráköst og Alonzo Walker og Adam Rönnquist skoruðu báðir 10 stig.
Síðustu leikir 32-liða úrslitanna fara fram annað kvöld og þá sækja Selfyssingar Skagamenn heim.
Tölfræði Þórs: Styrmir Snær Þrastarson 23/7 fráköst, Pablo Hernandez 14/9 fráköst, Adam Rönnqvist 10, Alonzo Anthony Walker 10, Tómas Valur Þrastarson 9, Daníel Ágúst Halldórsson 5/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 1.