Þór Þorlákshöfn tók forystu í einvíginu gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með frábærum sigri á heimavelli í kvöld, 115-92. Staðan í einvíginu er 2-1.
Þórsarar fóru á kostum í sókninni nánast allan leikinn. Staðan var 59-51 í leikhléi en Þór jók muninn í sextán stig í 3. leikhluta og hleypti Stjörnunni aldrei inn í leikinn eftir það. Frábær byrjun í 4. leikhluta skilaði Þórsurum 26 stiga forskoti. Sannkölluð sjómannadagsgleði.
Callum Lawson var frábær í kvöld, skoraði 26 stig og tók 8 fráköst. Annars fengu Þórsarar gott framlag úr öllum áttum og næstur á eftir Lawson kom Styrmir Snær Þrastarson með 22 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.
Fjórði leikur liðanna fer fram í Garðabænum á miðvikudaginn og nái Þórsarar öðrum útisigri þar eru þeir komnir í úrslitaeinvígið.
Tölfræði Þórs: Callum Lawson 26/8 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 22/7 fráköst/6 stoðsendingar, Larry Thomas 15/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 14, Adomas Drungilas 10/9 fráköst, Emil Karel Einarsson 10/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9/8 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 5/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 2, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2.