Þór Þorlákshöfn vann frábæran sigur á Tindastóli á erfiðum útivelli á Sauðárkróki í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta, 66-109.
Þórsarar voru í miklu stuði og voru með Stólana í vasanum allan tímann. Staðan í hálfleik var 40-60. Munurinn jókst enn frekar í seinni hálfleiknum, Þórsarar í hátíðarskapi og sýndu sparihliðarnar.
Glynn Watson var allt í öllu hjá Þórsurum og var maður leiksins með 25 stig, 12 stoðsendingar og 6 stolna bolta en þrátt fyrir skínandi leik hjá Watson var um sannkallaðan liðssigur að ræða og Þór fékk gott framlag úr öllum áttum.
Íslandsmeistararnir eru nú á toppi deildarinnar, með 16 stig að loknum tíu umferðum. Tindastóll er í 4. sæti með 12 stig.
Tölfræði Þórs: Glynn Watson 25/5 fráköst/12 stoðsendingar/6 stolnir, Luciano Massarelli 17/6 stoðsendingar, Daniel Mortensen 14/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 12/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 10, Ronaldas Rutkauskas 10/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 10, Tómas Valur Þrastarson 6, Ísak Júlíus Perdue 5.