Knattspyrnumaðurinn Þorsteinn Aron Antonsson er genginn í raðir Selfoss á láni frá enska úrvalsdeildarfélaginu Fulham.
Þorsteinn er öllum Selfyssingum kunnugur en hann lék stórt hlutverk í liði Selfoss sem komst upp um deild sumarið 2020. Þorsteinn var lánaður til Stjörnunnar í vetur en er nú mættur aftur í vínrautt.
„Ég er ánægður með það að vera kominn aftur heim á Selfoss og fá að spila á besta velli landsins. Það eru spennandi hlutir að gerast hérna og ég ætla að gera mitt allra besta til þess að hjálpa liðinu í toppbaráttunni,“ sagði Þorsteinn við undirskriftina.
Eftir tímabilið hér heima heldur Þorsteinn síðan aftur út til Englands þar sem hann mun spila með Fulham í vetur.