Knattspyrnumaðurinn Þorsteinn Aron Antonsson frá Selfossi er genginn til liðs við Fulham á Englandi.
Enska úrvalsdeildarfélagið Fulham hefur gengið frá kaupum á hinum unga og efnilega Selfyssing, Þorsteini Aroni Antonssyni. Hann gerir þriggja ára samning við félagið.
Þorsteinn steig sín fyrstu skref í meistaraflokki Selfoss í sumar og spilaði 17 leiki í deild og bikar. Hann stóð sig með eindæmum vel og vakti áhuga í Englandi.
Þorsteinn er fluttur til London en hann mun æfa og spila með u-18 liði félagsins til að byrja með.
Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Selfoss segir að þetta sé mikil viðurkenning, fyrir bæði leikmanninn og félagið.