Árborg vann magnaðan 3-2 sigur á KFK í toppbaráttu 4. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skoraði sigurmarkið í uppbótartímanum.
Leikurinn var spennandi og skemmtilegur allan tímann og liðin skiptu sóknarþunganum bróðurlega á milli sín. Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir á 23. mínútu með marki frá Hubert Kotus en eftir það stýrðu Árborgarar umferðinni fram að leikhléi, án þess að ná að skora.
Staðan var 0-1 í hálfleik og Árborg byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Þeir fengu ágæt færi en gekk illa að eiga við Andy Pew í hjarta KFK-varnarinnar. Á 54. mínútu fann Kristinn Sölvi Sigurgeirsson hins vegar bestu leiðina, þrumuskot fyrir utan teig upp í samskeytin og Árborgarar búnir að jafna.
Gestirnir sóttu í sig veðrið í kjölfarið en Kristinn Sölvi skoraði annað magnað mark á 67. mínútu eftir frábæran sprett. Árborgarar voru þó ekki lengi í paradís því KFK svaraði af krafti og Patrekur Búason jafnaði metin fjórum mínútum síðar.
Bæði lið áttu góðar sóknir á lokakaflanum en þegar leið á áttu Árborgarar meira á tanknum og á fyrstu mínútu uppbótartímans náði Þorsteinn Daníel að skora sigurmarkið með frábæru skoti úr teignum.
Árborg tyllti sér í toppsæti deildarinnar með sigrinum, liðið er með 10 stig en KFK er í 5. sætinu með 6 stig.
Önnur úrslit í 4. umferð 4. deildarinnar:
Álftanes 1 – 1 Tindastóll
1-0 Stephan Briem (’7)
1-1 Jónas Aron Ólafsson (sjálfsmark ’12)