Þorvaldur Gauti setti héraðsmet í 1.500

Þorvaldur Gauti í methlaupinu. Fyrir aftan hann er Kristófer Árni Jónsson úr B-sveit HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

A-sveit Héraðssambandsins Skarphéðins varð í 4. sæti í Bikarkeppninni í frjálsum íþróttum 15 ára og yngri innanhúss sem fram fór í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.

HSK fékk 75,5 stig og var í harðri keppni við FH um 3. sætið en að lokum munaði 0,5 stigum á liðunum. Glímufélagið Ármann varð bikarmeistari með 93,5 stig. B-sveit HSK varð í 6. sæti eftir drjúga stigasöfnun með 58 stig.

Eitt HSK met leit dagsins ljós á mótinu en Selfyssingurinn Þorvaldur Gauti Hafsteinsson hljóp 1.500 m hlaup á 4:59,75 mín sem er héraðsmet í flokki 13 ára drengja.

Veigar Þór Víðisson, Garpi, var atkvæðamikill í stigasöfnun HSK liðsins en hann varð bikarmeistari í hástökki, stökk 1,65 m og fékk silfur í langstökki þar sem hann bætti sig og stökk 5,33 m.

Veigar Þór Víðisson varð bikarmeistari í hástökki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

 

Fyrri grein33 í sóttkví á Suðurlandi – Engin staðfest smit
Næsta greinKennari í FSu með COVID-19