Þórsarar frá Þorlákshöfn voru í frábærum gír þegar þeir tóku á móti Haukum í fjórða leik einvígisins í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í vatnshöllinni í Þorlákshöfn í kvöld.
Dagsskipunin var einföld: sigur, ella væru Þórsarar komnir í sumarfrí. Þeir mættu ákveðnir til leiks og unnu sanngjarnan sigur, 94-82. Staðan í einvíginu er því 2-2 og oddaleikur framundan, sem fer fram í Ólafssal á Ásvöllum á mánudagskvöld.
Þórsarar urðu fyrir blóðtöku fyrir leik því Styrmir Þór Þrastarson var í borgaralegum klæðum á bekknum, eftir að hafa fengið vægan heilahristing í síðasta leik. Í fjarveru Styrmis þurftu aðrir að stíga upp og bróðir hans, Tómas Valur, tók það verkefni að sér. Tómas Valur átti frábæran leik, kom inn af bekknum og var með 22 í framlagseinkunn.
Þórsarar leiddu nánast allan tímann og stóðu öll áhlaup Hauka af sér. Staðan í hálfleik var 56-38 og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 74-59. Haukar minnkuðu muninn í lokinn en sigur Þórs var aldrei í hættu.
Jordan Semple var stigahæstur Þórsara með 26 stig og 11 fráköst og Tómas Valur kom á eftir honum með 21 stig. Vinnie Shahid var sömuleiðis öflugur með 18 stig og 14 stoðsendingar.
Þór Þ.-Haukar 94-82 (24-19, 22-19, 26-21, 22-23)
Tölfræði Þórs: Jordan Semple 26/11 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 21/4 fráköst, Vincent Shahid 18/14 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 11, Emil Karel Einarsson 6, Davíð Arnar Ágústsson 6/4 fráköst, Pablo Hernandez 6/5 fráköst.