Þrenna Lovera skaut Selfossi í undanúrslitin

Þrenna Lovera. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í undanúrslit Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu eftir góðan 4-1 sigur á Þór/KA á Selfossvelli í kvöld.

Það var dauft yfir fyrri hálfleiknum og hvorugt liðið sýndi sínar bestu hliðar en Þór/KA skoraði laglegt mark á 43. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Strax á 5. mínútu síðari hálfleiks jafnaði Brenna Lovera leikinn eftir góðan undirbúning Miröndu Nild og þær stöllur voru aftur á ferðinni á 70. mínútu, Miranda með stoðsendingu og Brenna með góða afgreiðslu úr vítateignum.

Veislan var rétt að hefjast og Selfoss gerði endanlega út um leikinn á síðustu tíu mínútunum þegar þær skoruðu tvö mörk með stuttu millibili. Barbára Sól Gísladóttir skoraði glæsimark á 84. mínútu og tveimur mínútum síðar kórónaði Brenna þrennuna og innsiglaði 4-1 sigur Selfoss.

Fyrri greinAlvarlegt slys í Reynisfjöru
Næsta greinÁrborg lagðist í skotgrafirnar og sigraði