Selfoss tapaði þriðja leiknum í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið heimsótti Víði í Garðinn.
Víðismenn komust yfir á 28. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Selfyssingar jöfnuðu metin á 62. mínútu með sjálfsmarki Víðismanna en fimm mínútum síðar voru Garðbúar komnir aftur yfir. Þeir innsigluðu svo 3-1 sigur með marki í uppbótartíma.
Þetta var þriðja tap Selfyssinga í deildinni í röð og þeir eru nú komnir niður í 5. sætið með 23 stig. Baráttan er hins vegar geysijöfn í deildinni og aðeins tvö stig upp í 2. sætið og tvö stig niður í 8. sætið.