Það var dramatík og spenna í Suðurlandsslag Selfoss og Ægis í Lengjudeild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Heimamenn skoruðu tvö mörk á síðustu fimm mínútum leiksins og tryggðu sér 3-1 sigur.
Þetta var þriðji sigur Selfyssinga í deildinni í röð og eru þeir nú komnir upp í 7. sætið með 19 stig. Ægismenn eru hins vegar í slæmri stöðu, orðnir aleinir á botninum með 8 stig, átta stigum frá öruggu sæti, þegar sjö leikir eru eftir.
Breki kom Selfyssingum á bragðið
Leikurinn fór rólega af stað á meðan liðin þreifuðu fyrir sér en þær þreifingar skiluðu reyndar ágætum færum á báðum endum vallarins. Á 27. mínútu komust Selfyssingar síðan yfir þegar Gary Martin spilaði sig frábærlega í gegnum vörn Ægis og renndi boltanum á Breka Baxter sem skoraði af öryggi. Ægismenn virkuðu nokkuð slegnir eftir þetta og Selfyssingar hefðu hæglega getað bætt við mörkum en Stefán Þór Hannesson átti mjög gott kvöld í marki Ægis.
Staðan var 1-0 í hálfleik en það var allt annað að sjá til Ægismanna í seinni hálfleik. Þeir voru mun sterkari aðilinn og jöfnuðu verðskuldað leikinn á 69. mínútu eftir góða skyndisókn. Cristofer Rolin slapp þá innfyrir en Stefán Þór Ágústsson varði frá honum, frákastið datt hins vegar fyrir Ivo Braz sem skoraði af öryggi. Ægir hélt áfram að sækja, fengu margar hornspyrnur og föst leikatriði og voru mun líklegri til að bæta við mörkum.
Tvö mörk á fjórum mínútum
Heilladísirnar voru hins vegar á bandi Selfyssinga í kvöld. Á 89. mínútu átti Jón Vignir Pétursson þrumuskot í þverslána og skömmu síðar datt boltinn fyrir Breka Baxter í vítateignum. Hann lék á mann og annan áður en hann þrumaði boltanum upp í þaknetið og kom heimamönnum í forystu. Fjórum mínútum síðar fékk Ívan Breki Sigurðsson nægan tíma til að athafna sig á hægri kantinum og hann sendi frábæra sendingu inn á teiginn þar sem Aron Fannar Birgisson sveif manna hæst og sneiddi knöttinn með kollinum í netið. Gullfallegt mark og 3-1 sigur Selfoss staðreynd.