Þrír Selfyssingar kepptu í Skotlandi

Breki, Hafn og Jakub ásamt Agli, sem var þjálfari í ferðinni. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingarnir Breki Bernhardsson, Hrafn Arnarsson og Jakub Tomczyk kepptu á Opna skoska meistaramótinu í júdó sem haldið var um síðustu helgi.

Keppnisferðin var farin með það að markmiði að afla punkta og komast ofar í landsliðinu. Þjálfari í ferðinni var Egill Blöndal en hann keppti ekki að þessu sinni þar sem hann er að jafna sig af meiðslum.

Hrafn átti bestu gengi að fagna af þeim félögum en hann tók þátt bæði í U21 og karlaflokki í -90 kg flokki. Í U21 árs flokki hafnaði Hrafn í 5. sæti af þrettán keppendum en hann sigraði tvær viðureignir af fjórum. Í karlaflokki varð Hrafn í 7. sæti af sextán keppendum og vann þar einnig tvær viðureignir og tapaði tveimur.

Breki keppti í -73 kg flokki karla og endaði í 9. sæti. Hann sat hjá í fyrstu umferð og sigraði í annarri en varð að játa sig sigraðan í næstu tveimur viðureignum.

Jakub keppti upp fyrir sig bæði í U21 árs og í karlaflokki í -66 kg flokki en hann er aðeins 16 ára. Því miður tapaði hann öllum sínum viðureignum að þessu sinni.

Það er mikið framundan hjá þessum júdómönnum á næstunni, þeir kepptu á RIG um helgina og framundan eru Opna danska meistaramótið og Norðurlandamótið sem verður haldið á Íslandi.

Fyrri greinLífið er lægð…
Næsta greinViðar Örn lánaður til Tyrklands