Þrír Sunnlendingar heiðraðir á Íþróttaþingi ÍSÍ

Guðmundur Kr, Hrafnhildur og Jón M. með viðurkenningar sínar. Ljósmynd/Gissur Jónsson

Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Guðmundur Kr. Jónsson voru kosin heiðursfélagar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Jón M. Ívarsson var sæmdur heiðurskrossi sambandsins á 74Íþróttaþingi ÍSÍ, sem sett var í Gullhömrum í Reykjavík í dag. 

Guðmundur Kr. hóf ungur að iðka frjálsar íþróttir á Selfossi og var afburða spretthlaupari og stökkvari og vann mörg glæst afrek bæði á héraðs- og landsvísu. Hann var til að mynda stigahæsti keppandinn í karlaflokki á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni árið 1965. Hann varð snemma öflugur félagsmálamaður og hefur alla tíð tekið virkan þátt í starfi Umf. Selfoss. Guðmundur var formaður frjálsíþróttadeildar Selfoss árin 1968-1979 og síðar framkvæmdastjóri félagsins, ásamt því að vera vallarstjóri á Selfossvelli. Þá var hann formaður Umf. Selfoss 2014-2018. Guðmundur var kjörinn formaður HSK árið 1981 og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap. Hann var kjörinn heiðursformaður HSK á ársþingi sambandsins árið 2018. Guðmundur sat í stjórn ÍSÍ í tvö ár, tímabilið 1988-1990. Hann tekur enn virkan þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar með ýmsum hætti. 

Hrafnhildur varð 35 sinnum Íslandsmeistari í sundi á árunum 1957 til 1972 og setti alls 75 Íslandsmet og eru þá ótalin metin sem hún átti með öðrum í boðsundi. Hún var langfremsta sundkona landsins á árunum 1962 til 1966 og átti þá öll Íslandsmet kvenna í sundi, nema í 1.500 m sundi – alls átján talsins. Hrafnhildur, sem keppti lengst af fyrir ÍR, varð Reykjavíkurmeistari 20 sinnum. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikum í Tókýó 1964 og í Mexíkó 1968. Hún hafnaði í 2. sæti í kjöri um Íþróttamann ársins 1963. Að sundferlinum loknum tók þjálfarastarfið við, lengst af í Þorlákshöfn, þar sem hún þjálfaði meðal annars fjögur börn sín sem öll áttu glæstan íþróttaferil í sundi. Hún endaði farsælan þjálfaraferil sinn hjá sunddeild Selfoss. Hrafnhildur átti sæti í Ólympíunefnd Íslands um árabil og sat auk þess í ýmsum nefndum og ráðum hjá Sundsambandi Íslands.

Auk Guðmundar Kr. og Hrafnhildar voru siglingamaðurinn Ari Bergmann Einarsson og körfuknattleiksmaðurinn Kolbeinn Pálsson kosnir heiðursfélagar ÍSÍ. Lárus L. Blöndalforseti ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttirframkvæmdastjóri ÍSÍ, afhentu viðurkenningarnar. 

Jón hefur unnið ómetanlegt starf við söguskráningu
Fjórir voru sæmdir heiðurskrossi ÍSÍ, sem er æðsta heiðursviðurkenning sambandsins. Auk Jóns M. Ívarssonar voru það þau Anna R. Möller, Stefán Snær Konráðsson og Svanfríður Guðjónsdóttir.

Jón M. hefur unnið ómetanlegt starf við að skrásetja sögu íþrótta- og ungmennahreyfinganna á Íslandi og liggur eftir hann fjöldi bóka um félög og samtök íþrótta á Íslandi, meðal annars um starfsemi ÍSÍ. Hann var liðtækur frjálsíþróttamaður á árum áður og lét einnig að sér kveða í blaki og glímu. Hann var virkur í íþróttastarfinu heima í héraði, á starfssvæði Héraðssambandsins Skarphéðins. Hann gegndi embætti ritara stjórnar Frjálsíþróttasambands Íslands árin 1985-1989 og hefur setið í allmörgum nefndum og ráðum innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar í gegnum tíðina. Hann sat einnig í stjórn Glímusambands Íslands árin 1985-2000, þar af sem formaður síðustu sex árin. Jón er alltaf reiðubúinn að taka að sér störf í þágu íþrótta, hvort sem það lýtur að dómgæslu, þingstörfum, ritarastörfum eða ritstörfum. Jón er sá sem flestir leita til ef finna þarf til heimildir um starf hreyfingarinnar því þar koma fæstir að tómum kofanum.

Fyrri greinNý stefnumótun í íþróttamálum: öryggi, aðgengi og fagmennska
Næsta greinEgill bestur á Íslandi