Í dag eru 9 mánuðir þangað til setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó fer fram þann 23. júlí 2021.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur unnið með sérsamböndum ÍSÍ að því að skilgreina Ólympíuhóp keppenda vegna leikanna í Tókýó og var hann birtur í dag.
Þrír Sunnlendingar eru í Ólympíuhópnum og stefna á leikana á næsta ári, en eiga eftir að ná lágmörkum.
Þetta eru Martin Bjarni Guðmundsson, sem keppir í áhaldafimleikum, sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir í 100 m, 200 m og 400 m skriðsundi og skotmaðurinn Hákon Þór Svavarsson í haglabyssuskotfimi.
Reglur íþróttagreina eru misjafnar hvað varðar möguleika íþróttafólks á að vinna sér þátttökurétt. Í ákveðnum greinum er miðað við lágmörk sem þarf að ná, meðan í öðrum þarf að keppa á fjölmörgum alþjóðlegum mótum og vinna sér inn stig á heimslista. Lokalisti í þeim greinum á vormánuðum 2021 segir svo til um hvaða keppendur vinna sér þátttökurétt á leikana.