Þrír sunnlenskir íþróttaþjálfarar fara með sínum íþróttamönnum eða liðum á Ólympíuleikana sem hefjast í Tokyo síðar í mánuðinum.
Á mánudag var greint frá því að Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir hefði fengið keppnisrétt í sundi á leikunum, en aðeins fjórir íslenskir íþróttamenn fara til Japan og hafa ekki verið jafn fáir í íslenska hópnum síðan Ólympíuleikarnir voru haldnir í Japan árið 1964. Hinn íslenski sundmaðurinn á Ólympíuleikunum er Anton Sveinn McKee og hann er ættaður frá Selfossi.
Þó að íslensku íþróttamennirnir séu fáir mun einvalalið íslenskra þjálfara mæta á leikana og þar af eru þrír Sunnlendingar.
Fyrstan skal nefna Pétur Guðmundsson, frá Tungu í Gaulverjabæjarhreppi, sem er frjálsíþróttaþjálfari íslenska liðsins. Þá mætir Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson á leikana með sínum sænsku kösturum; kringlukastaranum Daniel Ståhl og kúluvarparanum Fanny Roos. Síðastur en alls ekki sístur er Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson sem stýrir nú norska kvennalandsliðinu í handbolta á sínum fjórðu Ólympíuleikum, en hingað til hefur liðið alltaf unnið til verðlauna á leikunum undir stjórn Þóris.
Og úr því þessi upptalning er hafin þá er ekki hægt að ljúka henni án þess að minnast á fjórða þjálfarann á Ólympíuleikunum, Aron Kristjánsson, tengdason Selfoss, sem er landsliðsþjálfari karlaliðs Barein í handbolta. Hann tók aftur við bareinska landsliðinu í vor eftir að Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, gaf starfið frá sér að loknu heimsmeistaramótinu í janúar síðastliðnum.