Hamar vann öruggan sigur á Ármanni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en Selfoss og Hrunamenn töpuðu sínum leikjum.
Það var mikið skorað í leik Hamars og Ármanns en ein karfa stóð þó uppúr. Ragnar Ágúst Nathanaelsson hafði farið mikinn á samfélagsmiðlum í aðdraganda leiksins og lofaði aðdáendum sínum sinni fyrstu þriggja stiga körfu á ferlinum. Stóra stundin rann upp eftir 22 sekúndur þegar Ragnar skoraði glæsilega körfu fyrir utan teig og kom Hamri í 3-0. Þessi magnaða karfa lagði grunninn að sigri Hamars, sem leiddi í hálfleik 57-54, og Hvergerðingar litu ekki í baksýnisspegilinn í seinni hálfleik heldur lönduðu 124-109 sigri. Jose Medina átti stjörnuleik með 37 stig og 10 stoðsendingar en Ragnar Ágúst vann hug og hjörtu áhorfenda með 18 stig og 14 fráköst.
Selfyssingar lentu í kröppum dansi gegn Skallagrím á heimavelli. Leikurinn var sveiflukenndur og lokakaflinn æsispennandi. Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu betur og náðu tíu stiga forskoti en Selfoss átti 2. leikhlutann og leiddi 43-42 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var æsispennandi, Selfoss hafði frumkvæðið lengst af og voru heimamenn komnir með tólf stiga forystu þegar sex mínútur voru eftir. Þá fór allt í skrúfuna, Skallagrímur gerði 14-2 áhlaup og jafnaði 82-82 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Liðin skiptust á körfum eftir það en gestirnir tryggðu sér 88-90 sigur af vítalínunni þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum. Þunnskipaður leikmannahópur Selfoss skilaði ágætu framlagi í heildina en Arnaldur Grímsson stóð uppúr með 21 stig og 10 fráköst.
Góður endasprettur skilaði engu fyrir Hrunamenn sem heimsóttu Sindra á Hornafjörð. Leikurinn var jafn framan af en undir lok fyrri hálfleiks tóku Sindramenn af skarið og leiddu 56-44 í hálfleik. Forskot þeirra jókst enn frekar í 3. leikhluta og þegar sá fjórði hófst var staðan 81-55. Hrunamenn söxuðu vel á forskotið í 4. leikhluta en munurinn var orðinn of mikill til þess að bilið yrði að fullu brúað. Ahmad Gilbert var besti maður vallarins með 30 stig og 17 fráköst fyrir Hrunamenn.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 28 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Álftaness. Selfoss er í 4. sæti með 16 stig og Hrunamenn í 6. sæti með 14 stig.
Hamar-Ármann 124-109 (31-25, 26-29, 39-32, 28-23)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 37/10 stoðsendingar/5 stolnir, Mirza Sarajlija 21/8 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 18/14 fráköst/3 varin skot, Björn Ásgeir Ásgeirsson 18, Alfonso Birgir Gomez 9/4 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 9/8 fráköst, Daði Berg Grétarsson 8, Haukur Davíðsson 2, Brendan Paul Howard 2.
Selfoss-Skallagrímur 88-90 (13-23, 30-19, 25-20, 20-28)
Tölfræði Selfoss: Arnaldur Grímsson 21/10 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 18, Gerald Robinson 17/4 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 13/9 stoðsendingar, Ísar Freyr Jónasson 8/9 fráköst, Kennedy Clement Aigbogun 8/5 fráköst, Styrmir Jónasson 3.
Sindri-Hrunamenn 101-87 (24-25, 32-19, 25-11, 20-32)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 30/17 fráköst/6 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 12, Friðrik Heiðar Vignisson 11, Samuel Burt 10/5 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 8, Haukur Hreinsson 7, Eyþór Orri Árnason 5, Hringur Karlsson 2, Óðinn Freyr Árnason 2.