Þrjú HSK-met í Brúarhlaupinu

Andri Már Óskarsson (nr. 415) fremstur í flokki í Brúarhlaupinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hinn tíu ára gamli Andri Már Óskarsson frá Selfossi gerði sér lítið fyrir og bætti tvö héraðsmet í 5 km götuhlaupi í Brúarhlaupinu á Selfossi þann 13. ágúst síðastliðinn.

Andri Már varð tíundi í karlaflokki í 5 km hlaupinu á 21:54 mín og bætti hann þar með HSK-metin í götuhlaupi bæði í flokkum 11 og 12 ára um um það bil hálfa mínútu. Þess má geta að Andri Már hitaði upp fyrir 5 km hlaupið með því að sigra í 3 km skemmtiskokkinu í Brúarhlaupinu á 12:10 mín.

Metið í 5 km götuhlaupi í 11 ára flokknum var 22:28 mín en það átti Guðmundur Gígjar Sigurbjörnsson frá árinu 2014 og metið í 12 ára flokki var 22:23 mín en það átti Stefán Þór Sigtýr Ágústsson frá árinu 2013. Það er gaman að geta þess að Guðmundur Gígjar er leikmaður Knattspyrnufélags Árborgar í dag og Stefán Þór ver markið hjá knattspyrnuliði Selfoss.

Þriðja HSK-metið í Brúarhlaupinu í ár var öldungamet í flokki 70-75 ára karla en Hannes Stefánsson hljóp á 38:31 mín og er hann fyrsti hlauparinn á HSK-svæðinu til þess að fá skráðan árangur í 5 km götuhlaupi í þessum aldursflokki.

Fyrri greinBirkir Snær settur landgræðslustjóri
Næsta greinRut og vinir hennar á síðustu Gleðistund sumarsins