Fjöldi Sunnlendinga tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu um síðustu helgi. Þrír af hlaupurunum settu HSK met í sínum aldursflokki.
Björk Steindórsdóttir úr Frískum Flóamönnum bætti HSK metið í hálfmaraþoni í flokki 50-54 ára kvenna, hljóp á 1:43,05 klst. og var fimmta í sínum flokki. Hallfríður Ingimundardóttir átti gamla metið, 1;55,05.
Björn Magnússon frá Frískum Flóamönnum bætti 20 ára gamalt HSK met Jóns Guðlaugssonar í hálfmaraþoni í flokki 70-74 ára karla. Gamla metið var 1:58,17 klst. en Björn hljóp á 1:53,31 og varð annar í sínum flokki og langfyrstur Íslendinga. Jafnframt er þetta annar besti árangur íslendings frá upphafi í aldursflokknum.
Loks bætti Friðrik Smárason úr Laugdælum HSK metið í 11 ára flokki drengja í 10 km götuhlaupi. Friðrik hljóp á 54,06 mín, en Maron Tryggvi Heiðarsson átti gamla metið, 55,08 mín.