Mikhail Antipov og Sergei Zhigalko unnu sínar skákir í 1. umferð heimsmeistaramótsins á afmælisskákhátíð SSON sem hófst á Hótel Selfossi í dag.
Antipov sigraði Dinara Saduakassova en skákin hófst á stórsókn Saduakassova. Taflið snerist hins vegar í höndunum á henni eftir þrettán leiki og Rússinn tók yfirhöndina og hélt henni til loka.
Í skák Zhigalko og Sarasadat Khademalsharieh hafði Zhigalko góð tök á flókinni stöðu á borðinu allan tímann og vann góðan sigur.
Á borði 1 mættust Adly Ahmed, sem er stigahæsti keppandi mótsins, og Helgi Áss Grétarsson. Egyptinn hafði yfirhöndina lengst af en Helgi varðist árásum hans vel. Helgi sneri svo vörn í sókn en Adly varðist örugglega og skákinni lauk með jafntefli.
Hannes Hlífar Stefánsson og Semyon Lomasov gerðu einnig öruggt jafntefli og Héðinn Steingrímsson gerði sömuleiðis jafntefli við Rafael Leitão í skák sem komst aldrei á flug.
Önnur umferð mótsins hefst kl. 17:00 á morgun, miðvikudag, og er teflt í aðalsal Hótel Selfoss.