Þrjú mörk á sex mínútum afgreiddu Afríku

Hafþór Berg (t.v.) skoraði tvívegis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri vann öruggan sigur á Afríku í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Stokkseyri fékk reyndar ekki óskabyrjun því Afríka komst yfir strax á 2. mínútu. Fyrirliðinn Jóhann Fannar Óskarsson jafnaði fyrir Stokkseyri tíu mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði mjög fjörlega og Stokkseyri skoraði þrjú mörk á sex mínútna kafla. Hákon Logi Stefánsson kom þeim yfir á 48. mínútu og sex mínútum síðar hafði Hafþór Berg Ríkharðsson skorað tvö mörk. Afríka náði inn sárabótarmarki í blálokin og Stokkseyri sigraði örugglega, 4-2.

Þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni er Stokkseyri í 4. sæti riðils-4 með 6 stig og þeir mæta RB í lokaumferðinni næstkomandi laugardag.

Fyrri greinVíti í súginn og Víkingar sigruðu
Næsta greinEinn til viðbótar í gæsluvarðhald