Þröstur Guðnason, formaður Umf. Ingólfs í Holtum, var sæmdur gullmerki Héraðssambandsins Skarphéðins á 101. Héraðsþingi HSK, sem haldið var á Hellu í síðustu viku. Við sama tilefni var hann einnig sæmdur starfsmerki Ungmennafélags Íslands.
Þröstur hefur um áratugaskeið tekið þátt í störfum íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar, en hann hefur verið formaður Umf. Ingólfs frá árinu 1987, eða í 36 ár. Líklega hefur enginn formaður aðildarfélags HSK setið svo lengi samfellt sem formaður.
Þröstur átti sæti í varastjórn HSK á árunum 1999-2004 og mætti á þeim árum m.a. á þing UMFÍ og ÍSÍ sem fulltrúi HSK. Hann tók þátt í íþróttum á sínum yngri árum og keppti m.a. á héraðsmótum í glímu.
Um áratugaskeið hefur Þröstur mætt nær árlega á héraðsþing HSK sem fulltrúi síns félags. Hann er einn fárra sem hafa náð því að vinna bæði sleifarkeppnina á þinginu og vera valinn
matmaður héraðsþingsins. Þess má geta að Þröstur var þingforseti á héraðsþinginu á Laugalandi 2007 og á þinginu á Hellu 2011.
Kata og Óskar sæmd gullmerki ÍSÍ
Fleiri Sunnlendingar voru heiðraðir á þinginu á Hellu fyrir mikilvægt framlag til íþróttastarfs í héraðinu. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, sæmdi hjónin Katrínu Aðalbjörnsdóttur og Óskar Pálsson úr Golfklúbbnum Hellu gullmerki ÍSÍ og Gest Einarsson, Umf. Gnúpverja og varastjórnarmann í HSK, silfurmerki ÍSÍ. Sem fyrr segir var Þröstur sæmdur starfsmerki UMFÍ en Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Ungmennafélags Íslands, sæmdi einnig Bjarna Jóhannsson, Golfklúbbnum Hellu, starfsmerki UMFÍ.