Selfoss fagnaði góðum sigri á Þrótti Vogum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Gjánni á Selfossi.
Leikurinn var jafn og spennandi nánast allan tímann. Selfoss leiddi 45-43 í hálfleik og heimamenn náðu mest 11 stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks áður en Þróttarar komu til baka og minnkuðu muninn í 2 stig.
Í fjórða leikhluta voru Selfyssingar hins vegar skrefinu á undan allan tímann, þó að Þróttarar væru alltaf í seilingarfjarlægð. Selfoss sýndi styrk sinn þegar mest á reyndi og Þróttur átti engin svör á lokamínútunum.
Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 33 stig og 7 fráköst, Ísar Freyr Jónasson skoraði 11 og Vojtech Novák skoraði 10 stig og tók 12 fráköst. Eyþórssynir Arnór Bjarki og Birkir Hrafn skoruðu báðir 8 stig og Birkir tók 6 fráköst að auki, Geir Helgason skoraði 4 stig, Tristan Rafn Ottósson 3 og það gerði einnig Ebrima Jassey Demba og hann tók 8 fráköst að auki.
Selfyssingar eru í 8.-10. sæti deildarinnar með 10 stig en Þróttur er í 6. sæti með 16 stig.