Stokkseyringar sóttu ekki gull í greipar Léttismanna þegar liðin áttust við í 5. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.
Liðin mættust á ÍR-vellinum í Breiðholti og eftir fimmtán mínútna leik voru Léttismenn komnir í 2-0. Hákon Logi Stefánsson minnkaði muninn skömmu síðar en Léttir svaraði með tveimur mörkum og staðan var 4-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var markalaus, allt fram á 70. mínútu að Hákon bætti við öðru marki. Nær komust Stokkseyringar ekki því Léttir skoraði fimmta markið korteri fyrir leikslok. Stokkseyringar luku leik manni færri því Hákon fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu og þar með rautt.
Línur í A-riðlinum eru nokkuð skýrar. RB og Úlfarnir eru komnir langleiðina í úrslitakeppnina en Stokkseyri er í 5. sæti með 19 stig.